Margir kannast við stressið sem fylgir því að standa fyrir framan hóp af fólki og halda kynningu af einhverju tagi. Þetta er þó bráðnauðsynlegt að kunna til þess að kynna hugmyndir sínar, ferli sem eru í gangi og að selja hluti svo dæmi séu tekin. Sl. helgi fékk JCI framúrskarandi leiðbeinanda frá Hollandi til þess að halda námskeiðið JCI Presenter til þess að kenna þessa hluti og fengum við æfingu og endurgjöf. Dennis Ament kenndi þetta á lifandi hátt með góðum dæmum og kryddaði með því að leyfa fólki að fá tækifæri til þess að æfa sig. Metskráning var á námskeiðið svo að það var haldið tvisvar sinnum enda ekki á hverjum degi sem tækifæri sem þessi gefast. Ekki er annað hægt að segja en þetta námskeið hafi kennt öllum sem það sóttu eitthvað nýtt, sama hversu vant fólk var enda alltaf hægt að tileinka sér nýja tækni. Ekki er heldur alslæmt að fá að titla sig „JCI Presenter“ í kjölfarið!
Dennis kryddaði svo helgina með því að bjóða upp á námskeið sem hann heldur reglulega í sínu starfi í Amesterdam um skilvirka líkamstjáningu. Hann sýndi fram á það hversu lítill hluti af samskiptum fer fram með orðum og hvernig skal nýta sér líkamstjáningu og læra að lesa í annarra manna líkamstjáningu.
JCI þakkar Dennis magnaða helgi og hlakkar til næstu viðburða enda nóg á döfinni!