Blindir sjá: Annað sjónarhorn

Poster3-MenningarnóttVerkefnið Blindir sjá: Annað sjónarhorn var ljósmyndakeppni fyrir blinda og sjónskerta sem skipulögð var af JCI hreyfingunni í samvinnu við Blindrafélagið. Keppnin fór fram sumarið 2015. Dómnefnd valdi topp 10 myndirnar og voru þær til sýnis á Skólavörðustíg á Menningarnótt. Almenningur gat kosið bestu myndina og verðlaunaafhending fór fram á 100 ára afmælishátíð JCI hreyfingarinnar í september 2015.

Tilgangur keppninnar var:

1. Að vekja athygli á minnihlutahópum á borð við blinda og sjónskerta og vekja fólk til umhugsunar um aðstæður þeirra og réttindum þeirra sem og allra annarra til að taka fullan þátt í þjóðfélaginu.

2. Líta á hlutina frá öðru sjónarhorni. Hvert og eitt okkar glímir við áskoranir í daglegu lífi. Sumar áskoranir og erfiðleikar sjást ekki utanfrá. Margir gætu fundið innblástur og hvatningu af því að heyra sögur af einstaklingum sem takast á við og yfirstíga slíkar áskoranir. Sú staðreynd að blindir einstaklingar geta líka tekið myndir með því að nota önnur skynfæri en sjónina er góð áminning um að láta ekki hindranir stoppa okkur í að taka þátt og njóta lífsins.

3. Við erum öll fædd með mismunandi hæfni til að skynja lífið. Að taka mynd án þess að vera með fulla sjón krefst þess að beina athyglinni að umhverfinu, skynja ljósið, heyra hljóðin í umhverfinu og fleira. Þessi ljósmyndakeppni hefur þann tilgang að minna fólk á að veita umhverfi sínu athygli og þykja vænt um umhverfi sitt.

Myndirnar hér fyrir neðan eru þær topp tíu sem dómnefnd valdi úr hópi 75 mynda sem bárust í keppnina (ekki í neinni sérstakri röð).

Þarna er Drangey

Þarna er Drangey

Rósa Ragnarsdóttir

“Mér finnst ég sjá ágætlega sjálf.. sé það sem ég vil sjá”

Rósa starfar sem matráður hjá litlu fyrirtæki og er einnig garðyrkjufræðingur að mennt. Hún er gift og á þrjú börn. Áhugamál Rósu eru að syngja, leira og ferðast. Hún er léttlynd og jákvæð að eðlisfari. Rósa segist taka skrýtnar myndir þar sem hún vill fanga stemningu og hún leitast við að taka myndir af hlutum sem hafa áhrif á hana. Rósa keypti sína fyrstu myndavél þegar hún eignaðist barn til þess að tryggja að til væru myndir af frumburðinum.

Mannamyndir hafa oft heppnast vel hjá Rósu, til dæmis var hún eitt sinn í brúðkaupi þar sem myndirnar hjá ljósmyndaranum klúðruðust. Þá reyndust einu nothæfu myndirnar vera myndirnar sem Rósa tók og deginum bjargað. Rósa tekur einnig myndir til að varðveita augnablikið og getað rifjað það upp aftur. Rósa fæddist sjónskert og er lögblind, með um 3% sjón.

Skáleyjar, Breiðafirði

Skáleyjar, Breiðafirði

Halla Dís Hallfreðsdóttir

Halla Dís starfar sem hjúkrunarfræðingur á endurhæfingarsviði í Stykkishólmi. Helstu áhugamál hennar eru söngur, útivist, fjallgöngur, hjólreiðar og fara á sjóinn að veiða. Hún á þrjá stráka; 7 ára, 12 ára og 14 ára. Ljósmynd Höllu var tekin í Skáleyjum á Breiðafirði á Iphone síma sem elsti sonur hennar á.

“Þegar ég tek mynd þá einbeiti ég mér að því að miða út myndefnið og ná skemmtilegum augnablikum frekar en að pæla í skuggum og fínni atriðum. Ég er frekar ljósfælin í birtu og vil helst hafa fólk á myndum þar sem ég upplifi ekki litbrigði og fíngerð blæbrigði þar sem ég er eiginlega alveg litblind”. Halla er sjónskert með hrörnunarsjúkdóm í augnbotnum (RP). Hún líkir sjón sinni við gamla litaljósmynd sem er að fölna. Hún sér hluta úr mynd og blinda bletti þar á milli. “Ég var hætt að taka myndir en þessi ljósmyndakeppni ýtti við mér. Þegar ég tók myndir á símann fékk ég áhugann aftur þar sem mér finnst síminn taka betri myndir heldur en gamla digital myndavélin.”

Herramannajakkaföt

Skáleyjar, Breiðafirði

Bergljót Gunnarsdóttir

Bergljót er elsti keppandinn í Blindir sjá. Hún á 5 börn og 16 barnabörn. Hún var heimavinnandi húsmóðir en fór á vinnumarkaðinn eftir að börnin fluttu að heiman. Helstu áhugamál Berglindar eru handavinna, að prjóna og gönguferðir. Bergljót er með glettnislega kímnisgáfu sem kemur bersýnilega í ljós í frásögnum hennar af fjölskyldunni. Bergljót var til að mynda eitt sinn að steikja kleinur þegar barnabarn hennar spurði móður sína hvort kleinurnar væru svona góðar þar sem amma væri staurblind! Fjölskyldumeðlimir Bergljótar halda því fram að hún setji upp sérstakan myndasvip þegar myndir eru teknar af henni.

Bergljót er með aldurstengda hrörnun í augnbotnum. Hún er lögblind og getur hvorki lesið af sjónvarpi né blöðum. Bergljót sér hinsvegar útlínur og hefur tekið svolítið af myndum og þá mest fjölskyldumyndir.

Þessi mynd sýnir barnabarn Bergljótar. Drengurinn vildi ólmur fá “herramannajakka” og fékk hann loks. Sama dag stillti Bergljót sér upp og tók mynd af barnabarninu í herramannajakkanum á gömlu filmuvélina.

Grasker beint frá bónda á Spáni – 1. sæti

Beint frá bónda á Spáni

Elín H. Bjarnadóttir

“Ég tek myndir til að sjá meira”

Elín var meðlimur í JCI Borgarnes á árunum 1985 til 1989. Áhugamál Elínar eru að ferðast, grípa tækifæri sem gefast, njóta lífsins og umgangast hresst fólk. Hún ferðast mikið innanlands sem utan lands. Elín tekur ljósmyndir reglulega af því sem hún upplifir.

Elín greindist með RP augnsjúkdóminn fyrir 10 árum en hefur verið með hann frá fæðingu. Hún er með Stargardt tegund af sjúkdómnnum sem lýsir sér í því að hún missir miðju sjónarinnar og hún greinir því ekki andlit á fólki. Á hinn bóginn mun hún þó aldrei koma til með að missa sjónina að fullu. Elín beitir ýmsum ráðum í daglegu lífi og notar meðal annars kíki til að sjá betur, t.d. ef fólk stendur uppi á sviði. Í viðtali vegna ljósmyndakeppninnar sagði Elín: “Ég er að uppgötva það núna að mig langar til að taka fleiri myndir”.

Sumarfrí á Suðurlandi

Sumarfrí á Suðurlandi

Þórarinn Þórhallsson

Áhugi Þórarins á ljósmyndun leiddi hann á ljósmyndanámskeið þar sem hann lærði undirstöðuatriði í svarthvítri ljósmyndun. Hann hefur tekið ljósmyndir í gegnum árin en eftir að hann eignaðist barnabarn hefur áhugi hans á að taka myndir aukist. Hann vinnur sem framleiðslustjóri hjá Einum grænum og Ostahúsinu og stýrir þar fjölbreyttri vinnslu með grænmeti og osta. Aðaláhugamál Þórarins er hestamennska, hann á sinn eigin hest og ríður út enn þann dag í dag.

Þórarinn fæddist með RP augnsjúkdóminn (litningagalla) sem veldur því að sjónsvið hans verður sífellt þrengra með árunum. Hann var greindur með sjúkdóminn á þrítugsaldri og er í dag aðeins með 10 gráðu sjónsvið á hvoru auga, en fullt sjónsvið er 90 gráður. Þórarinn er með mikla náttblindu og á erfitt með að ná fókus en sér ágætlega frá sér. Hann hefur þó aldrei litið á sig sem blindan þrátt fyrir að hafa fengið örorkumat.

Samferða 2 – við Sokki

Samferða 2 við Sokki

Sigþór U. Hallfreðsson

“Þetta snýst allt um að fanga augnablikið”

Sigþór vinnur sem iðnaðartæknifræðingur hjá Verkís verkfræðistofu. Sigþór er í fjarbúð þar sem hann vinnur og býr á höfuðborgarsvæðinu en fer vestur á Stykkishólm til unnustu sinnar um helgar. Áhugamál hans eru hestamennska, bækur og tónlist. Sigþóri þykir gaman að taka myndir við sérstök tilefni.

Framlag Sigþórs til ljósmyndakeppninnar er mynd tekin af hestbaki. Hesturinn heitir Sokki og er í eigu bróður Sigþórs. Sigþór sagði þetta hafa verið skemmtilegt augnablik og sjónarhornið ólíkt hefðbundnu sjónarhorni, sérstaklega þar sem íslenski hesturinn er smágerður. Sigþór er með arfgengan augnsjúkdóm (RP) og er lögblindur hefur um 10-20% sjón. Einnig er hann náttblindur.

Emil

Emil

Marjakaisa Matthíasson

Marjakaisa starfar á skrifstofu Blindrafélagsins en auk þess vinnur hún við þýðingar úr íslensku yfir á finnsku. Áhugamál hennar eru lestur, garðvinna og prjónaskapur. Hún er gift og á 2 stráka, 18 og 20 ára.

Marjakaisa er sjónskert þar sem hún fæddist með ský á augasteini. Við myndatökur einblínir Marjakaisa á liti og þá hluti sem fanga athygli hennar. Eða eins og hún sagði sjálf: „Ég nota myndavélina til að sjá smáatriði, t.d. ef ég heyri í býflugu þá reyni ég að taka mynd af henni og skoða hana svo betur á skjánum”. Hún nýtur þess að taka myndir á stafrænar myndavélar þar sem hægt er smella af mynd án þess að hafa áhyggjur af því að klára filmuna.

Án titils

Án titils

Friðgeir Þ. Jóhannesson

Áhugamál Friðgeirs eru félagsstörf; hann er félagsmaður bæði í Lions og Kiwanisklúbbunum og er stjórnarmaður í Öryrkjabandalaginu. Hann er giftur og á tvö börn og 10 barnabörn.

Friðgeir vann við borun og sprengingar en er í dag kominn á eftirlaun. Friðgeir er alblindur en hann missti sjónina í vinnuslysi fyrir 16 árum. Friðgeir leggur áherslu á að taka myndir á áhugaverðum stöðum sem að vinir og kunningjar hafa bent honum á. Hann var kunnugur svæðinu við Elliðaárnar þar sem hann hefur gengið þar um reglulega síðustu 12-14 ár og var einn á gangi daginn sem myndin var tekin.

Í gamla bænum Shanghai, Kína

Í gamla bænum Shanghai, Kína

Elín H. Bjarnadóttir

“Ég tek myndir til að sjá meira”

Elín var meðlimur í JCI Borgarnes á árunum 1985 til 1989. Áhugamál Elínar eru að ferðast, grípa tækifæri sem gefast, njóta lífsins og umgangast hresst fólk. Hún ferðast mikið innanlands sem utan lands. Elín tekur ljósmyndir reglulega af því sem hún upplifir.

Elín greindist með RP augnsjúkdóminn fyrir 10 árum en hefur verið með hann frá fæðingu. Hún er með Stargardt tegund af sjúkdómnnum sem lýsir sér í því að hún missir miðju sjónarinnar og hún greinir því ekki andlit á fólki. Á hinn bóginn mun hún þó aldrei koma til með að missa sjónina að fullu. Elín beitir ýmsum ráðum í daglegu lífi og notar meðal annars kíki til að sjá betur, t.d. ef fólk stendur uppi á sviði. Í viðtali vegna ljósmyndakeppninnar sagði Elín: “Ég er að uppgötva það núna að mig langar til að taka fleiri myndir”.

Þá varð allt hvítt

Þá varð allt hvítt

Bergljót Gunnarsdóttir

Bergljót er elsti keppandinn í Blindir sjá. Hún á 5 börn og 16 barnabörn. Hún var heimavinnandi húsmóðir en fór á vinnumarkaðinn eftir að börnin fluttu að heiman. Helstu áhugamál Berglindar eru handavinna, að prjóna og gönguferðir. Bergljót er með glettnislega kímnisgáfu sem kemur bersýnilega í ljós í frásögnum hennar af fjölskyldunni. Bergljót var til að mynda eitt sinn að steikja kleinur þegar barnabarn hennar spurði móður sína hvort kleinurnar væru svona góðar þar sem amma væri staurblind! Fjölskyldumeðlimir Bergljótar halda því fram að hún setji upp sérstakan myndasvip þegar myndir eru teknar af henni.

Bergljót er með aldurstengda hrörnun í augnbotnum. Hún er lögblind og getur hvorki lesið af sjónvarpi né blöðum. Bergljót sér hinsvegar útlínur og hefur tekið svolítið af myndum og þá mest fjölskyldumyndir.

Þessi mynd var tekin í maí síðastliðnum. Bergljót lá í rúminu og sá að það var tekið að snjóa úti. Henni fannst það áhugavert að sjá snjó í miðjum maí og ákvað að ná í myndavélina og taka mynd af því.