Gleðiverkefnið

Kveikjan að sumum verkefnum getur verið átakanleg. Þegar félagi okkar féll fyrir eigin hendi vegna þunglyndis var ákveðið að fara af stað með þetta verkefni. Þunglyndi er sjúkdómur og orsakirnar eru margvíslegar. Góð félagsleg tengsl eða hjálparhönd getur reynst þunglyndum lífsbjörg.

Samkvæmt vef HAM er áætlað að 300 milljónir manna þjáist af þunglyndi í heiminum. Því er þunglyndi mun algengara en ætla mætti og flestir finna fyrir þunglyndi einhvern tíma á ævinni.

Okkur langaði að nálgast þunglyndi á öðruvísi hátt en áður hefur verið gert og minna fólk á að líta í kringum sig. Hlúa að ættingjum, vinum, kunningjum og átta sig á því hversu mikil áhrif hversdagsleg samskipti við aðra geta skipt sköpum. Náungakærleikurinn í hávegum hafður. Gefin voru út myndbönd, haldinn stór gleðidagur auk annarra smáverkefna.

GGDagurinn (geggjaði dagurinn)

Geggjaði dagurinn var haldinn laugardaginn 19. júlí 2014 en kjörorð dagsins voru gleði og ánægja. Dagurinn var vitunarvakning við þunglyndi.

Dagurinn byrjaði á kertafleytingu við tjörnina til minningar um þá sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Síðar var dagskrá á Ingólfstorgi sem samanstóð af tónlistaratriðum, fræðslu, Zumba, töfrabrögðum og hópknúsi. Samstarfsaðilar voru á svæðinu til að kynna starfsemi sína og aðstoða fólk eftir þörfum.

Þrátt fyrir dynjandi rigningu var góð mæting og dagurinn heppnaðist vel eins og sjá má á myndbandi þar sem fólk er í zumba á Ingólfstorgi.
ggdagurZumba

Gleðiverkefnið er á Facebook þar sem deilt hefur verið mikið af fróðlegu efni.

Samstarfsaðilar

Einnig lögðu fjölmargir aðilar verkefninu lið og færum við þeim sérstakar þakkir fyrir

  • Center hotels
  • Í húsi blóma
  • Samasem
  • Málningarverk
  • Mosfellsbakarí
  • Tolli Morthens
  • Sirrý og Smári sögusmiðir