Kynningarnámskeið JCI

Á þessu námskeiði er starf JCI kynnt og farið yfir grunnfærni sem nýtist öllum í starfi og einkalífi.

JCI er vettvangur til að næla sér í dýrmæta reynslu með því að hrinda í framkvæmd eigin hugmyndum og þeirri þekkingu sem maður hefur aflað sér. Auk þess er í boði að sækja skemmtileg námskeið og í leiðinni víkka út tengslanetið.

Viltu…
-öðlast færni sem nýtist á vinnustaðnum – í félagslífinu – einkalífinu?
-kynnast nýju fólki og stækka tengslanetið þitt?
-skila betri árangri í hópastarfi, á fundum, við skipulagningu viðburða?

Þá ert þú á réttum stað!

Næsta kynningarnámskeið hefst þriðjudaginn 16. ágúst

1. kvöld – Kynningarkvöld (16. ágúst)
2. kvöld – Árangursríkt hópastarf (23. ágúst)
3. kvöld – Skilvirkir fundir (30. ágúst)
4. kvöld – Skipulagning viðburða (6. september)

Ítarlegri upplýsingar um hvert kvöld fyrir sig:

Kynningarkvöld (Kvöld nr. 1 )

Á fyrsta kvöldinu kynnum við hreyfinguna og þátttakendum gefst tækifæri til að kynnast félögum og fá betri innsýn í starfið. Við segjum frá því hvað það er sem við gerum, af hverju, hvernig og hvað er framundan hjá okkur. Einnig hvernig áhugasamir geti tekið þátt og notið ávaxta starfs okkar.

Jafnframt verða næstu þrjú kvöld kynnt lauslega; Hvað þau ganga út á, hvers má vænta af þeim og hvaða þekkingu/færni þátttakendur mega búast við að öðlast.

Árangursríkt hópastarf (Kvöld nr. 2)

Á þessu námskeiði verða kynnt 5 þrep sem eiga að geta gert hvaða hóp sem er að árangursríku teymi. Við munum skoða hvað það er sem veldur því að sumir hópar vinna illa saman, hvað veldur árekstrum og hvað veldur því að sumir einstaklingar í hópastarfi skila litlu sem engu.

Jafnframt munum við skoða gaumgæfilega hvað það er sem veldur því að sum teymi ná hreint ótrúlegum árangri. Við munum rýna í aðferðafræði, skoða samsetningu hópa út frá persónuleikafræðum og rýna í ólík hlutverk ólíkra einstaklinga í hópastarfi.

Skilvirkir fundir (Kvöld nr. 3)

Flestir ef ekki allir hafa setið klassískan fund sem skilaði litlu eða engu, var í raun bara endurtekning á síðasta fundi. Að sama skapi hafa flestir gengið út af fundi sem átti að skila miklu, var boðaður með góðum fyrirvara og leit út fyrir að vera skipulagður en leystist svo bara einhvernveginn upp í spjall, umræður, hugsanlega rifrildi og þegar upp var staðið skilaði hann engum eða litlum niðurstöðum og ekkert var ákveðið.
Á þessu námskeiði muntu öðlast skilning á því hvað veldur svona fundum og öðlast færni til að koma í veg fyrir þá, hvort sem það er með því að mæta ekki á þá eða með því að beita betri aðferðafræði við stjórnun, framkvæmd og skipulagningu þeirra.

Skipulagning viðburða (Kvöld nr. 4)

Hvort sem stefnt er að því að halda lítinn eða stóran viðburð þarf alltaf að huga að skipulagningu eigi vel til að takast. Á þessu námskeiði verður farið ofan í saumana á því sem kallað er „best practises“ þegar á að skipuleggja viðburð, skoða tímaferla og áætlanagerð, hvernig markmið eru skilgreind fyrir mismunandi viðburði, hvernig kynningar og markaðsstarfi er háttað og fleiri mikilvæga þætti í ferlinu. Það er að ýmsu að huga þegar skipuleggja á góðan viðburð, hvort sem það er lítil afmælisveisla eða árshátíð hjá stóru fyrirtæki og munum við sjá hvernig þekking og skilningur á árangursríku hópastarfi og skilvirkum fundarhöldum fléttast hér inn og spilar mikilvæga rullu í undirbúningi og skipulagningu viðburða.

Eftir að námskeiðinu lýkur gefst þátttakendum kostur á að ganga inn í JCI. Húsið er þá opið öllum JCI félögum svo þeir sem eru á námskeiðinu geta kynnst félaginu.