Föstudaginn 10. júní var haldin glæsileg móttaka í Sólinni í Háskólanum í Reykjavík. JCI Ísland var þar að veita tveimur framúrskarandi Íslendingum viðurkenningu fyrir árið 2011: Magnús Geir Þórðarson í flokknum ‘störf/afrek á sviði menningar’ og Freyja Haraldsdóttir í flokknum ‘einstaklingssigrar og/eða afrek’.

Freyja og Magnús eru vel að þessum viðurkenningum komin. Þau hafa bæði verið einstaklega góðar fyrirmyndir á sínum sviðum og smitað fólk með sér með áhuga sínum og persónutöfrum.

Um 40 manns mættu í móttökuna, þar sem forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, veitti Freyju og Magnúsi viðurkenningarnar. Ingólfur Ingólfsson landsforseti hélt tölu, fólk gæddi sér á veitingum, Einar Valmundsson úr JCI Reykjavík og Hanna Kr. Másdóttir landsgjaldkeri sáu um kynningarnar á verðlaunahöfunum, og almennt var mjög góð stemmning á meðal þeirra sem sóttu móttökuna. Verðlaunahafarnir voru alla vega mjög ánægðir!

Jónas Bragi glerlistamaður hannaði verðlaunagripina.

Landsstjórn JCI Íslands 2011 vill að lokum þakka samstarfsaðilum sínum kærlega fyrir þeirra aðkomu í þessu stóra og skemmtilega verkefni: Landsbanki Íslands, N1 og Háskólinn í Reykjavík.

Hér má sjá svo tvær myndir frá Ragnari F. Valssyni:

Frá vinstri til hægri: Ingólfur Ingólfsson landsforseti JCI Íslands 2011, forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson, Magnús Geir Þórðarson framúrskarandi ungur einstaklingur, Hanna Kr. Másdóttir landsgjaldkeri JCI Íslands 2011, Einar Valmundsson JCI Reykjavík og fyrir framan Freyja Haraldsdóttir framúrskarandi ungur Íslendingur.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, áamt verðlaunahöfum ársins 2011 Magnúsi Geir Þórðarsyni og Freyju Haraldsdóttur