Jón Sveinbjörn Arnþórsson

Fæddur 3. nóvember 1931

Lést 23. janúar 2011

Útförin fór fram frá Akureyrarkirkju föstudaginn 4. febrúar kl. 13.30

Kvatt hefur þennan heim Jón Sveinbjörn Arnþórsson.  Það er greinilegt að þar hefur farið maður sem yndi hafði af félagsstörfum.  Listinn yfir afrek Jóns er langur en mig langar með grein þessari að minnast stuttlega aðkomu hans að starfi JC hreyfingarinnar á Íslandi.  Jón var nefnilega í hópi ungra manna sem ruddu brautina fyrir hreyfingu sem fagnaði 50 ára afmæli á síðasta ári.  Jón var þriðji landsforseti JCI Íslands og starfaði sem slíkur á árunum 1962 – 1963.  Þá bjó Jón í Garðabæ og eftir því sem samferðamenn hans segja mér þá var hann virkur og drífandi félagi.

Leiðir okkar Jóns lágu aldrei saman en eftir að hafa lesið um hann velti ég því fyrir mér hvort saga hans sé ekki svipuð og mín og þúsunda annarra Íslendinga sem gengið hafa í gegnum JC skólann.  Hvort félagsáhugi hans hafi kviknað á JC árunum og að þar hafi hann fengið tækifærið til að þjálfa sig í félagslegri færni, sem síðar hafi orðið honum gott veganesti út í lífið.  Jóni, sem og öðrum frumkvöðlum sem störfuðu á fyrstu árum JC, eigum við núverandi félagar mikið að þakka.

Fyrir hönd JCI hreyfingarinnar á Íslandi vil ég votta eftirlifandi eiginkonu Jóns, Giselu Rabe-Stephan og fjölskyldu þeirra, innilegustu samúðarkveðjur.  Megi minning Jóns lifa um ókomna tíma.

Ingólfur Már Ingólfsson

Landsforseti JCI Íslands