Rífandi stemming var á aðalfundi JCI Esju, fimmtudagskvöldið 17. janúar sl. Mættu rúmlega 20 manns til að skoða nýja stjórn í bak og fyrir og þakka fráfarandi stjórn fyrir glæsilegan árangur á liðnu ári. Jóhanna, Þórhildur og Salka fóru yfir það öfluga starf sem fór fram á árinu 2012 og lögðu fram ársreikning sem var stórglæsilegur og tekur ný stjórn við góðu búi. Guðbjörg, Harpa, Margrét og Fanney kynntu að auki starfið sem er framundan og er ljóst að ekki á að slá slöku við. Margir viðburðir eru í vændum 2013 en helst ber að nefna Þorrablót, Landsþing, Twinning og ýmis námskeið.

Kynnti stjórnin jafnframt keppnina „frumlegasta fundarboðið“. Esjufélagar fá það verkefni að skipuleggja einn félagsfund á árinu í 3-5 manna hópum og keppa sín á milli hvaða hópur sendir út frumlegasta fundarboðið. Hafði stjórnin þegar sent út fundarboð í flöskuskeyti og verður spennandi að sjá hvernig Esjufélagar boða á komandi fundi.

Fundarboð í formi flöskuskeytis

Stjórnarskipti fóru svo fram, en kjörin stjórn fyrir 2013 eru þær:
Guðbjörg Ágústsdóttir, forseti
Harpa Grétarsdóttir, ritari
Margrét Helga Gunnarsdóttir, gjaldkeri
Fanney Þórisdóttir, varaforseti

Stjórn JCI Esju – Guðbjörg, Fanney, Harpa og Margrét

Voru að lokum veittar viðurkenningar og fengu allir stjórnarmeðlimir beggja stjórna viðurkenningar auk þess að Viktor Ómarsson, Guðlaug Birna Björnsdóttir og Loftur Sigurðsson fengu viðurkenningar fyrir ómetanlegan stuðning á árinu.

– Harpa Grétarsdóttir

Viðurkenningar

 

Slegið á létta strengi og nýr forseti krýndur með kórónu, skikkju og forsetakeðju

 

Stjórn Esjunnar – ekki alveg í fókus en í fullu fjöri