Glæsilegar ræður frá krökkunum á Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

JCI fékk það stórskemmtilega verkefni að kenna ræðumennsku á Nýsköpunarkeppni grunnskólanna þriðja árið í röð. Við mættum í HR á föstudegi þar sem krakkarnir voru að vinna að uppfinningunum sínum og fengum þau send til okkar í hópum þar sem við fórum í leiki, renndum yfir lykilatriði þess að halda góða ræðu og leyfðum krökkunum svo að kynna hugmyndirnar sínar. Gaman var að heyra hversu frjótt ímyndunarafl þau hafa og hversu fjölbreyttar og skemmtilegar uppfinningarnar voru. Við erum handviss um að þarna leynist hugmyndir sem verða komnar á markað innan tíðar.

 

Daginn eftir fengum við til okkar þau börn sem höfðu áhuga á að kynna hugmyndirnar sínar á verðlaunaafhendingunni og fínpússuðum ræðurnar þeirra, sem þau fluttu af svo miklum myndugleika að við ætluðum að rifna úr stolti. JCI þakkar þau forréttindi að fá að vinna með þessum flottu krökkum og við hlökkum til að hitta hópinn sem verður þarna að ári.