Harpa Grétarsdóttir, JCI félagiNýlega birtist grein eftir Hörpu Grétarsdóttur, JCI félaga, á Vefpressunni. Í greininni fjallar hún um mikilvægi þess að setja sér ekki bara markmið sem snúa að líkamlegri heilsu heldur einnig markmið sem lúta að betri andlegri heilsu og því að láta gott af sér leiða.

Í greininni segir meðal annars:

 Ég eyddi stórum hluta líðandi árs í alls konar neikvæðni þrátt fyrir að framfylgja öllum góðu heitunum um að rækta heilsuna. Ég var óánægð með sjálfa mig, mér leið eins og ég hefði eytt fjórum árum lífs míns í fullkomlega tilgangslaust nám…

…. Með þessa vanlíðan á bakinu brunaði ég beint í ræktina til þess að vinna í líkamanum því ég var alveg viss um að árangurinn mundi setja plástur á sálina. Einni buxnastærð neðar var ég þó jafn atvinnulaus og umkomulaus í eigin skinni.

Síðar í greininni kemur Harpa svo inn á það hve andlega styrkjandi það er að taka þátt í samfélagsverkefnum og láta gott af sér leiða:

Það hefur gefið mér ótrúlega mikið að láta gott af mér leiða. Sumt er ekki stórt fyrir samfélagið en getur skipt höfuðmáli fyrir þá sem njóta góðs af, t.d. krakkarnir sem eiga eftir að leika sér á leikvellinum sem ég ætla að taka þátt í að gera upp með öðrum JCI félögum.

Manngildið er svo sannarlega mesti fjársjóður jarðar og það að bæta mannlífið er öllum verkum æðra og því sérstaklega ánægjulegt að að lesa niðurlag greinarinnar.

Ég ætla að bæta við áramótaheitum þetta árið. Ég ætla að vera dugleg að hugsa um heilsuna og líkamann en í ár ætla ég að auki að láta gott af mér leiða og vera sterkari og betri manneskja fyrir vikið.

Greinina er hægt að lesa í heild sinni hér: http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_adsent/harpa-aramotaheitin