Vilhjálmur Grímsson

Fæddur 3. ágúst 1942

Lést 12. nóvember 2011

Útförin fór fram frá Fella- og Hólakirkju föstudaginn 18. nóvember kl. 13

Kvatt hefur þennan heim Vilhjálmur Grímsson, fyrrverandi landsforseti og senator.  Mig langar með grein þessari að minnast stuttlega aðkomu hans að starfi JC hreyfingarinnar á Íslandi.  Vilhjálmur var virkur í starfi JC Suðurnesja, fyrsta formlega aðildarfélaginu sem stofnað var árið 1967.  Vilhjálmur varð landsforseti JC Íslands og starfaði sem slíkur á árunum 1974 – 1975.  Vilhjálmur starfaði vel og lengi fyrir JC hreyfinguna og hlaut að launum útnefningu sem senator eða ævifélagi.  Eftir að hefðbundnu JC starfi lauk tók Vilhjálmur lengi vel virkan þátt í starfi Hins íslenska senats.

Ég hitti Vilhjálm aðeins á 50 ára afmælisfagnaði hreyfingarinnar á síðasta ári.  Þar voru saman komnir um helmingur þeirra landsforseta sem gegnt höfðu embættinu á þeim 50 árum sem hreyfingin hafði starfað.  Einn af öðrum vorum við kynntir inn í salinn en Vilhjálmi hlotnaðist sá heiður að vera fyrstur þar sem hann var sá okkar er fyrst gegndi embættinu.  Það var mér heiður að hitta Vilhjálm á þessari hátíðarstundu.

Fyrir hönd JCI hreyfingarinnar á Íslandi vil ég votta eftirlifandi eiginkonu Vilhjálms, Vigdísi Pálsdóttur og fjölskyldu þeirra, innilegustu samúðarkveðjur.  Megi minning Vilhjálms lifa um ókomna tíma.

Ingólfur Már Ingólfsson

Landsforseti JCI Íslands 2011