Helgina 27.-29. september var haldið 52. Landsþing JCI á Íslandi. Gestgjafarnir í ár voru aðildarfélagið JCI Esja og var þingið haldið á Hótel Stykkishólmi. Landsþingið hefur ekki verið jafn fjölmennt í mörg ár, en rúmlega 100 manns sóttu þingið, innlendir sem erlendir gestir.

JCI Esja hélt á sama tíma Twinning fyrir vinafélög sín um alla Evrópu. Þau byrjuðu gleðina á miðvikudegi á ferðalagi um Suðurlandið þar til þau enduðu á Stykkishólmi á fimmtudegi og tóku þátt í Landsþingi.

Föstudagurinn byrjaði eldsnemma á óvenju hressum þingfundi. Hart var tekist á um hinar ýmsu lagabreytingar og fjörlegar umræður spunnust. Senatorar í salnum minntu gesti á að fylgja fundarsköpum svo allt fór þetta siðsamlega fram. Á þingfundinum var ný landsstjórn kosin og samanstóð af Sigurði Sig, Nínu Maríu, Viktori, Elizes, Jóhönnu og Margréti Helgu.

Landsstjórn JCI 2014. F.v. Nína, Elizes, Viktor, Margrét og Sigurður. Á myndina vantar Jóhönnu

Eftir kvöldverð hvarf fólk inn á herbergi til þess að klæða sig upp í grímubúninga fyrir kvöldið en mikið leynimakk spannst innan aðildarfélaganna til þess að koma á óvart á kvöldinu sjálfu. Þema kvöldsins var „íslenskar sögur“ og mættu í partý einherjar, “með allt á hreinu”, víkingar úr framtíðinni og jólasveinar svo dæmi séu tekin. JCI Reykjavík voru ómudeildir sigurvegarar kvöldsins með heimsklassa íslenskt skemmtiatriði.

Búningar Reykjavíkurinnar slógu í gegn

 

Laugardagurinn hófst á stórfenglegu námskeiði frá hinum breska Dan Moxon þar sem farið var í saumana á JCI og hvernig hægt er að nýta starfið og efla sjálfan sig og aðra á sama tíma.

Námskeiðið hjá Dan

Að námskeiðinu loknu kepptu JCI Esja og JCI Reykjavík í ræðuveislu. Rætt var hvort banna ætti internetnotkun á landsþingi JCI Íslands og var Reykjavík meðmælandi en Esja mótmælandi. Hart var barist og átti dómnefnd erfitt með að velja, en að lokum stóð JCI Esja uppi sem sigurvegari og Margrét Helga Gunnarsdóttir ræðumaður dagins.

Margrét Helga ræðumaður dagsins

Um kvöldið mætti mannskapurinn í sínu fínasta pússi í kokteil í boði landsforseta og þaðan í matinn. Þemað var „2007“ og byrjaði kvöldið á mikilfenglegum trommuslætti. Hanna Kristín og Gunnar Þór voru veislustjórar og hélt Hanna uppi 2007 staðlinum með því að skipta um kjóla milli atriða. Verðlaun voru veitt og varð Hrólfur Sigurðsson senator. Eftir gala kvöldið var mál að skella sér í náttfötin og halda áfram gleðinni fram eftir nóttu.

Trommusveit Stykkishólms byrjaði galakvöldið af krafti.

Þétt setið náttfatapartý

Á sunnudeginum hélt Viktor Ómarsson námskeið um markmiðasetningu, en Viktor var sigurvegari í námskeiðakeppni sem haldin var fyrr á árinu. Að því loknu voru það sorgmæddir JCI félagar sem kvöddust og brunuðu til síns heima, með það að markmiði að endurtaka leikinn að ári.