Eins og fram hefur komið hér á síðunni var fyrsta fimmtudagsfræðslan í Hellusundinu í kvöld en annan og fjórða fimmtudag í mánuði verður boðið uppá fræðslu í JCI húsinu.

Seinni fimmtudag mánaðarins verður leitast við að fá reynda JCI félaga til að kynna gamalt og eða nýtt efni. Segja má að verið sé að leyfa starfandi félögum að njóta goðsagna JCI, reynslu þeirra og visku.

Það er óhætt að segja að þátttakendur kvöldsins urðu ekki fyrir vonbrigðum.
Gísli Blöndal senator frá JCI Reykjavík kynnti fyrir okkur þá félaga Loka, Lása, Þef og Þeyting, úr bókinni Hver tók ostinn minn? Þátttakendur sáu í þeim félögum vini, fjölskyldu og jú janfnvel sig sjálfa (svona ef vel var að gáð).

Frábærlega skemmtilegt og gagnlegt námskeið sem Gísli þýddi ásamt Halli Hallssyni árið 2003, þetta efni á ótrúlega vel við í dag, en það er nú yfirleitt þannig með gott efni, það á alltaf við. Allir þátttakendur fóru útaf námskeiðinu með eitthvað í farteskinu og setningin “frelsið er handan óttans” ómar í höfði undirritaðrar og mun sennilega gera næstu daga og án vafa mun upplifun kvöldsins hafa í för með sér ýmsar breytingar.

Ég vil fyrir hönd okkar allra þakka Gísla fyrir frábæra kvöldstund.

Fimmtudagsfræðsla í febrúar verður dagana 11. og 25. ég mun ekki láta mig vanta á þau kvöld, það skal ítrekað að þessi kvöld eru öllum opin sem hafa áhuga á því að læra.

-abg