1. grein

Senatorútnefning er viðurkenning fyrir frábært starf í þágu Junior Chamber. Vanda skal val á þeim sem útnefna á senator. Senator er ævifélagi í Junior Chamber.

2. grein

Væntanlegur senator skal hafa:

  • Verið félagi í Junior Chamber í minnst 3 ár.
  • Unnið mjög fórnfúst starf í Junior Chamber.
  • Stuðlað að jákvæðu hugarfari og kynnum á Junior Chamber.
  • Unnið umtalsvert starf utan síns aðildarfélags.

Umsókn ásamt greinargerð um starf væntanlegs senators frá inngöngu hans í Junior Chamber, sendist landsforseta.

3. grein

Um umsóknir til útnefningar senatora skal fjallað af landsforseta, fráfarandi landsforseta og forseta senatsins. Þeir skulu sjá til þess að útnefningin fari fram við tilhlýðilegt tækifæri.

4. grein

Senatorar fá senda JC bókina og málgagn hreyfingarinnar endurgjaldlaust. Að öðru leiti vísast til reglugerðar Junior Chamber International um útnefningu senatora.


Örn Sigurðsson, landsforseti 2002

1. grein

Sá félagi sem náð hefur 1000 stigum á JCI brautinni hefur öðlast rétt til útnefningar heiðursfélaga íslensku JCI hreyfingarinnar.

2. grein

Forseti og ritari aðildarfélags skulu senda til landsforseta JCI braut þeirra sem öðlast hafa réttinn. Tilnefningar skulu berast minnst 30 dögum fyrir útnefningardag. Landsforseti og landsritari skulu fjalla um framkomnar staðfestingar frá aðildarfélögunum og taka ákvörðun um útnefningu. Kostnaður vegna útnefningar greiðist af aðildarfélaginu.

3. grein

Hver sá félagi í Junior Chamber sem hlýtur útnefningu skal hljóta sérstakan skjöld heiðursfélaga, áritaðan nafni sínu. Landsforseti veitir skjöldinn við tilhlýðilegt tækifæri. Allir heiðursfélagar starfsársins skulu síðan kallaðir upp á landsþingi. (Nöfn þeirra verði skráð í fundargerð.) Þeir njóta allra sömu réttinda og almennur félagi sem greitt hefur félagsgjald innan aðildarfélags og innan JCI Íslands. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda til JCI Íslands frá og með næsta starfsári eftir útnefningu, en þó skal JCI Ísland greiða af þeim til Junior Chamber International.


Ari Eggertsson, landsforseti 1996

1. grein

Til þessa sjóðs er stofnað eftir framboð JCI Íslands í embætti heimsforseta (Andrés B. Sigurðsson, 1985).

2. grein

  1. Tilgangur sjóðs þessa er að styrkja þá einstaklinga sem JCI Ísland býður fram til embætta á alþjóðavettvangi. Heimilt er að veita allt að 25% af sjóðnum í hvert framboð.
  2. Með stjórn sjóðsins fara: Landsforseti, landsgjaldkeri og lögsögumaður JCI Íslands. Stjórn sjóðsins tekur ein ákvörðun um styrkveitingar úr sjóðnum. Sjóðurinn er í vörslu landsgjaldkera.
  3. Höfuðstóll sjóðsins, en hann var stofnaður 17. febrúar 1986, var kr. 138.832,80 og skal sjóðurinn ávallt ávaxtaður eftir bestu leiðum hverju sinni, samkvæmt mati stjórnar.
  4. Sjóði þessum skal gera sérstaklega skil í reikningum hreyfingarinnar.
  5. Sjóðurinn skal fjármagnaður af frjálsum framlögum JCI Íslands og einstakra félaga.
  6. Ef íslenska JCI hreyfingin leggst niður, skulu ákvæði laga JCI Íslands um ráðstöfun eigna gilda við ráðstöfun sjóðsins.

Þórður Möller, landsforseti 2001

Kvæðakútur er eign JCI Íslands.

Um hann skal keppt á hverju landsþingi á þann hátt að landsstjórn sér um að semja fyrripart vísu, sem JCI félögum á landsþingi gefst síðan tækifæri til að botna. Kvæðakútur skal standa frammi á landsþingi og í hann skal láta vísubotna. Hætt verður að taka á móti botnum í lok þess fundar, sem vísuparturinn er kynntur á.

Dómendur í kvæðakútakeppni skulu vera þrír:

  • Landsstjórnarmaður.
  • Senator, kosinn af landsstjórn.
  • JCI félagi frá því aðildarfélagi sem vann kvæðakút á síðastliðnu landsþingi.

Dómnum verður að hlíta.

Rétt til þátttöku hafa allir JCI félagar, sem staddir eru á landsþingi þegar keppnin fer fram, utan landsstjórnarmenn og dómendur.

Að úrslitum kynntum fær það JCI félag sem vinningshafinn er félagi í kvæðakút til varðveislu fram að næsta landsþingi og er til þess ætlast að það félag haldi minnst eina vísnakeppni innbyrðis á starfsárinu, sem það varðveitir kvæðakút.

Svo mjög sem fagurt bundið mál ber af óbundnu, er mín von að kvæðakútur megi stuðla að eflingu mannsandans, sem er æðsta athöfn lífs vors.
– Pálmi Jónsson, Sauðárkróki 12. maí 1978.

Þannig samþykkt á landsþingi í Hveragerði 15. maí 1978.


Fylkir Ágústsson, landsforseti 1977-1978

1. grein

Merki hreyfingarinnar er lögskráð og verndað sem eign hennar (sjá mynd).

2. grein

Notkun á merki hreyfingarinnar er aðeins heimil með samþykki stjórnar viðkomandi aðildarfélags eða landsstjórnar. Merkið skal koma fram á öllum prentuðum gögnum hreyfingarinnar.

3. grein

Ekki er heimilt að nota merki hreyfingarinnar í breyttri mynd.


Örn Sigurðsson, landsforseti 2002

1. grein

Almenn merki
Við inngöngu í JCI fá félagar merki hreyfingarinnar. Merkið skal vera í barmi eða á öðrum áberandi stað. Heimild til að bera merki þetta hafa aðeins fullgildir félagar.

2. grein

Stjórnarmerki
Hver stjórnarmaður í landsstjórn og aðildarfélagi fær, í byrjun starfsárs, viðeigandi embættismerki, sem hann ber í eitt ár. Landsforseti og forsetar aðildarfélaga fá að loknu starfsári merki sem fráfarandi forseti. Allir stjórnarmenn eigi merkin að starfsári loknu, til minningar.

3. grein

Umsjónarmenn í aðildarfélagi og landsstjórnar.
Þeir sem starfa sem umsjónarmenn/nefndarformenn á vegum landsstjórnar, og aðildarfélaga fá embættismerki sem þeir bera það ár sem þeir gegna embætti, en eiga síðan til minningar.

4. grein

Senatoramerki
Þeir sem hljóta senatoraútnefningu fá senatoramerki og mega bera það til æviloka.

5. grein

Merkjaburður
Ætlast er til þess að hver félagi í JCI beri sitt félags- eða embættismerki á fundum og samkomum hreyfingarinnar og sem oftast þess utan. Fyrrverandi forsetum er heimilt að bera merki fráfarandi forseta, meðan þeir eru fullgildir félagar.


Ari Eggertsson, landsforseti 1996

1. grein

Heiti og tilgangur
Sjóðurinn heitir Ásgeirssjóður. Hann er til minningar um senator Ásgeir Gunnarsson, einn af máttarstólpum JCI á Íslandi til margra ára. Stofndagur sjóðsins er 12. nóvember 1991. Tilgangur sjóðsins er að efla námskeiðahald í hreyfingunni með styrkveitingum. Sjóðurinn er eign JCI Íslands.

2. grein

Sjóðsfélagar
Sjóðsfélagar eru þeir einir sem greitt hafa og öðlast réttindi til að bera merki Ásgeirssjóðs. Tekjur sjóðsins verða til með sölu sjóðsmerkja, frjálsum framlögum og áheitum.

3. grein

Sjóðsstjórn
Stjórnin skal skipuð minnst 3 mönnum. Árlega skal skipa einn mann í stjórn til þriggja ára en starfstími sjóðsstjórnar miðast við kjörtímabil viðkomandi landsstjórnar. Sjóðsstjórnin heyrir undir landsforseta, sem skipar menn í stjórnina og er skipanin staðfest af landsstjórn. Í sjóðsstjórn mega sitja senatorar og heiðursfélagar JCI Íslands eldri en fertugir.

4. grein

Starfshættir

  1. Landsforseti er eftirlitsmaður sjóðsstjórnar. Hann skipar formann og ber ábyrgð á störfum hennar gagnvart hreyfingunni.
  2. Stjórnin skiptir með sér störfum. Formaður boðar fundi stjórnarinnar og ber ábyrgð á störfum nefndarinnar gagnvart landsforseta.

5. grein

Styrkveiting
Aðildarfélög eða stjórn JCI Íslands geta sótt um styrkveitingu til sjóðsstjórnar. Umsóknir skulu vera skriflegar og lýsa verkefninu sem sótt er um fyrir og skal kostnaðaráætlun um verkið í heild sinni fylgja. Umsóknin skal undirrituð af forseta. Öllum umsóknum verður svarað innan mánaðar frá ofangreindum dagsetningum, en sjóðsstjórn er jafnframt heimilt að hafna öllum umsóknunum ef hún kýs svo.

6. grein

Reikningshald
Sjóðurinn og bókhald sjóðsins skal vera í höndum landsgjaldkera. Höfuðstóll sjóðsins skal ávallt ávaxtaður eftir bestu leiðum hverju sinni, samkvæmt mati sjóðsstjórnar. Úr sjóðnum má úthluta skv. stöðu sjóðsins og skv. mati sjóðsstjórnar hverju sinni. Endurskoðendur JCI Íslands eru jafnframt endurskoðendur sjóðsreikninga. Sjóðnum skal gera sérstaklega skil í reikningum hreyfingarinnar.

7. grein

Ef JCI hreyfingin íslenska leggst niður, skulu ákvæði laga JCI Íslands um ráðstöfun eigna gilda við ráðstöfun sjóðsins.


Ingólfur Már Ingólfson, landsforseti 2011

RN_Rokraedueinvigi_Reglur.doc

RN_Maelskukeppnin_Reglur.doc

RN_Raeduveisla_Reglur_2006.doc

RN_Maelskukeppni_einstaklinga_Reglur.doc

 

Related Articles