Reglugerðir JCI eru hér að neðan, aðrar síður eru Lög JCI Íslands og Reglur JCI Íslands


I.REGLUGERÐ UM AÐILD AÐ HREYFINGUNNI
í samræmi við 3. grein laga um aðild

1. grein
Þegar landsstjórn hefur staðfest aðild nýs aðildarfélags veitir hún því sérstakt staðfestingarskjal, áritað nöfnum stofnfélaga, undirritað af landsforseta og forseta stofnfélags.
2. grein
Fullgildir og löglegir félagar teljast þeir einstaklingar sem:
a) Eru á aldrinum 18-40 ára, embættismenn JCI Íslands skulu þó ljúka því ári sem þeir eru kosnir til.
b) Eru skráðir í félagatal aðildarfélags og JCI Íslands.
c) Greitt hefur verið félagsgjald af samkvæmt 27. grein laga JCI Íslands og/eða greitt hafa félagsgjald til síns aðildarfélags.
3. grein
Landsstjórn ákveður meðferð mála, sem varða útilokun aðildarfélaga úr hreyfingunni í samráði við lögsögumann. Landsstjórn getur útilokað og tekið af skrá það aðildarfélag sem hvorki hefur haft stjórn né aðra starfsemi síðustu þrjú starfsár og þar að auki ekki greitt til hreyfingarinnar af félögum sínum. Komi fram tillaga að útilokun aðildarfélags sem hefur haft starfsemi á síðustu þremur árum, skal gæta þess að réttur þess aðildarfélags sé hvergi skertur og í þeim tilfellum verði landsþing endanlegur ákvörðunaraðili. Áður en til útilokunar aðildarfélags kemur, skal landsstjórn boða til félagsfundar.

Jenný Jóakimsdóttir landsforseti 2007
——————————————————————————–

II.REGLUGERÐ UM UMSJÓNARMENN JCI ÍSLANDS
í samræmi við 15. grein laga

1. grein
Umsjónarmenn eru formenn nefnda og umsjónarmenn tiltekinna verkefna.

2. grein
Tilgangur
Tilgangur með skipan umsjónarmanna (embættismanna) er að hafa umsjón með og vinna að þeim verkefnum sem þeir eru skipaðir til.

3. grein
Skipan
Landsstjórn skipar umsjónarmenn og nefndarformenn samkvæmt tilnefningum sem henni berast. Berist engar tilnefningar er landsstjórn heimilt að skipa í embætti sbr. 14. gr. laga. Almennt miðast starfstími umsjónarmanna við kjörtímabil viðkomandi landsstjórnar en landsstjórn er þó heimilt að gera undantekningu á þeirri reglu og fer það eftir eðli starfsins/verkefnisins.

4. grein
Starfshættir

1. Sérhver umsjónarmaður hefur eftirlitsmann af hálfu landsstjórnar sem ber ábyrgð á störfum viðkomandi.
2. Umsjónarmenn skulu í upphafi starfsárs fá skipunar- og erindisbréf frá eftirlitsmanni sínum, er kveður á um verkefni þeirra og skyldur.
3. Landsstjórn skal gera starfslýsingu fyrir umsjónarmenn ásamt því að skilgreina skyldur þeirra í skipunar- og erindisbréfi.
4. Umsjónarmaður er ábyrgur fyrir störfum sínum gagnvart viðkomandi eftirlitsmanni og ber að upplýsa hann reglulega og hvenær sem þess er óskað. Öllum umsjónarmönnum er skylt að fá samþykkt verkefni frá landsstjórn áður en hafist er handa við framkvæmd eða aðrar skuldbindingar. Samþykkt landsstjórnar þarf til allra fjárhagslegra skuldbindinga á vegum umsjónarmanns eða nefnda. Séu fjármál tengd verkefninu er umsjónarmönnum/nefndum skylt að skila inn til landsstjórnar fjárhagsáætlun og greiðsluáætlun fyrir verkefnið og er því aðeins heimilt að halda verkefninu áfram hafi landsstjórn (eftirlitsmaður) gefið samþykki sitt skriflega.
5. Umsjónarmenn skulu skila inn til landsstjórnar skriflegum skýrslum og fjárhagslegum uppgjörum svo oft sem landsstjórn óskar þess.

5. grein
Aðstoð
Umsjónarmenn geta með samþykki eftirlitsmanns, skipað aðstoðarmenn við tiltekin verkefni. Aðstoðarmenn skulu fá erindisbréf og ber viðkomandi umsjónarmaður ábyrgð á störfum þeirra gagnvart eftirlitsmanni sínum. Umsjónarmenn geta kallað sér til ráðuneytis sérhvern félaga innan Junior Chamber Íslands, telji þeir ástæðu til.

Þorsteinn V. Sigurðsson landsforseti 1997
——————————————————————————–

III.REGLUGERÐ UM SVIÐ TÆKIFÆRA
í samræmi við 30. grein laga

1. grein
Svið einstaklings:
Skal veita félagsmönnum tækifæri til að auka hæfni sína með þjálfunarnámskeiðum, leiðbeinendastörfum og ræðumennsku. Verkefni skulu stuðla að aukinni þáttöku felaganna, gagnkvæmum kynnum og samstöðu þeirra. Helstu verkefni: Námskeiðahald, mælsku og rökræðukeppnir, innlend vinnafélagatengsl, viðurkenningar, félagslíf, fundir, framboð, landsþingsþáttaka og þingboð.

2. grein
Svið viðskipta:
Skal veita félagsmönnum tækifæri til þátttöku í viðskiptum og vekja áhuga fyrirtækja og einstaklinga í atvinnulífinu á JCI hreyfingunni, veita tækifæri til að öðlast stjórnunarhæfni með stjórnþjálfun og hagnýta reynslu og forystu á öllum þrepum hreyfingarinnar. Helstu verkefni: Viðskiptaklúbbur, viðskiptatengd námskeið og verkefni sem tengja hreyfinguna viðskiptalífinu, skipulag starfsárs, kynnig, félagaöflun, útbreiðsla, almenningstengsl.

3. grein
Svið samfélags:
Skal veita tækifæri til aukins skilnings á viðfangsefnum þjóðfélagsins og/eða samfélagsins og möguleika á að vinna að þeim í JCI starfi. Helstu verkefni: Landsverkefni og heimsverkefni ásamt öðrum samfélagsverkefnum (t.d. Menningarnótt), JCI dagurinn sem aðildarfélögin halda 10. maí ár hvert og nota til kynningar á hreyfingunni. Verkefni JCI dags skal höfða til ákveðinna málefna sem valin eru á 1. framkvæmdastjórnarfundi hverju sinni.

4. grein
Svið alþjóða samstarfs:
Skal veita félagsmönnum tækifæri til að efla kynni og skilning við aðildarfélagslönd JCI og miðla þekkingu og auka samstarf meðal þjóða. Helstu verkefni: Erlend vinafélagatengsl, heimsóknir og samstarf erlendis, þátttaka í alþjóðlegum þingum, erlend námskeið, alþjóðlegur JCI dagur og önnur alþjóðleg verkefni. Alþjóðlegi JCI dagurinn er 11. desember ár hvert og skal hann notaður til kynningar á starfi hreyfingarinnar.

Þorsteinn G. Jónsson landsforseti 2004

——————————————————————————–

IV.REGLUGERÐ UM LEIÐBEINENDARÉTTINDI OG NÁMSKEIÐAHALD
í samræmi við 25. grein laga

1. grein
Réttindi til leiðbeinendastarfa
Matsnefnd sem í eiga sæti einn fulltrúi landsstjórnar og tveir fulltrúar leiðbeinendaráðs fjalla
um umsóknir félaga til leiðbeinendastarfa og breytinga á stigum. Umsögn þeirra skal send
landsstjórn til staðfestingar. Matsnefndi skal hafa eftirfarandi reglur til viðmiðunar.

2. grein
Stig I. Leiðbeinendanemi /aðstoðarleiðbeinandi
Leiðbeinandi á þessu stigi hefur rétt til að vera aðstoðarleiðbeinandi með II. Stigs
leiðbeinanda á opinberum námskeiðum innan hreyfingarinnar.
Leiðbeinendanemi / aðstoðarleiðbeinandi þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að þess að
geta sótt um að komast á þetta stig:
a) Hafa a.m.k. 100 stig á JCI braut.
b) Hafa lokið viðkomandi námskeiði.
c) Uppfylla aðrar hæfniskröfur viðkomandi námskeiðs.

3. grein
Stig II. Leiðbeinandi / Aðal leiðbeinandi
Leiðbeinandi á þessu stigi hefur rétt til að leiðbeina sjálfstætt innan hreyfingarinnar á
námskeiðum sem eru eign JCI Íslands. Hann má leiðbeina á almennum markaði með III. eða
IV. stigs leiðbeinanda að fenginni staðfestingu landsstjórnar.
Leiðbeinandi / Aðal leiðbeinandi þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði.
a) Hafa a.m.k. 200 stig á JCI braut.
d) Hafa setið leiðbeinendanámskeið eða hlotið sambærilega þjálfun hjá IV. stigs leiðbeinanda.
e) Hafa leiðbeint amk. tvisvar á viðkomandi námskeiði og hlotið jákvæða umsögn tveggja
umsjónar-/aðalleiðbeinenda.

4. grein
Stig III. JCI leiðbeinandi
Leiðbeinandi á þessu stigi hefur rétt til að leiðbeina sjálfstætt fyrir landshreyfinguna og á
almennum markaði í nafni hreyfingarinnar. Ætlast er til að sá sem náð hefur þessu stigi sé fær
um að þýða, staðfæra eða semja eigin gögn/námskeið. Leiðbeinendur á þessu stigi geta
leiðbeint á landsvísu þ.e. landsþingi, námskeiði fyrir stjórnir eða sambærilegt. JCI
leiðbeinendur geta tekið sæti í leiðbeinendaráði óski þeir þess. Til að viðhalda réttindum sem
JCI leiðbeinandi þarf viðkomandi að leiðbeina að lágmarki 10 klst. á ári.
JCI Leiðbeinandi þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:
a) Hafa lokið námskeiði í leiðbeinendatækni eða sambærilegu alþjóðlegu
leiðbeinendanámskeiði.
b) Hafa hlotið meðalskor yfir 7 á síðustu þremur námskeiðum fyrir umsókn.
c) Hafa leiðbeint amk. 150 klst fyrir hreyfinguna, þar af að lágmarki 50 klst. á
opinberum námskeiðum JCI Íslands og geta gert grein fyrir þeim.
d) Hafa samið eða þýtt og staðfært námskeið sem hefur hlotið jákvæða umsögn
leiðbeinendaráðs

5. grein
Stig IV. Alþjóðlegur Leiðbeinandi
Leiðbeinandi á þessu stigi hefur rétt til að leiðbeina á alþjóðlegum vettvangi að uppfylltum
reglum Junior Chamber International um alþjóðleg leiðbeinendaréttindi. Leiðbeinendur á
þessu stigi leiðbeina fyrir hönd hreyfingarinnar á leiðbeinendatækni og öðrum
leiðbeinendanámskeiðum og þegar til þeirra er leitað samkvæmt nánara samkomulagi.
a) Hafa leiðbeint á leiðbeinendanámskeiði.
b) Hafa lokið amk. tveimur alþjóðlegum JCI námskeiðum.
c) Hafa leiðbeint amk. 250 klst, fyrir hreyfinguna og geta gert grein fyrir þeim.
d) Hafa samið og gefið námskeið til JCI Ísland.

6. grein
Námskeið/Námskeiðsgögn
Vanda skal til undirbúnings og aðstöðu fyrir öll námskeið sem haldin eru í nafni JCI. Ný eða
endurskoðuð námskeiðsgögn skulu hljóta samþykki þriggja JCI leiðbeinenda.

7. grein
Endurmat námskeiða og leiðbeinenda
Í lok allra JCI námskeiða skulu þátttakendur beðnir um endurmat á þar til gerðu
endurmatsblaði útgefnu af leiðbeinendaráði. Leiðbeinandi skal skila endurmatsblöðum til
leiðbeinendaráðs sem heldur utan um skráningu og eftirfylgni.

8. grein
Sala námskeiða
a) Námskeiðahald á almennum markaði
Aðildarfélögum og einstaklingum er heimilt að selja námskeið á almennum markaði að
fengnu samþykki landsstjórnar. Sala námskeiðs og val leiðbeinenda skal vera í samráði við
landsstjórn. 20% af tekjum af sölu námskeiða skal greiða til JCI Íslands 80% skiptast á milli
söluaðila og leiðbeinenda eftir samkomulagi.
b) Aðgangur almennings
Heimilt er að selja aðgang að öllum námskeiðum á vegum JCI Íslands og aðildarfélaganna til
kynningar á hreyfingunni. Skiptist þá hagnaður á milli söluaðila og leiðbeinenda eftir
samkomulagi en 20% af tekjum af sölu námskeiða skal greiða til JCÍ. Landsstjórn og
leiðbeinendaráð gefur út verðskrá vegna námskeiða sem kynnt er á fyrsta FS fundi ár hvert.
Auglýst verð námskeiðanna skal ávallt vera samkvæmt þeirri verðskrá.

9. grein
Leiðbeinendaráð
Leiðbeinendaráð ber ábyrgð á eftirfarandi:
• Stefnumótun á sviði námskeiðahalds og leiðbeinendamála hreyfingarinnar.
• Utanumhald og umsjón með námskeiðum, handbókum og öðrum nauðsynlegum
gögnum til námskeiðshalds. Leiðbeinendaráð
• Mat á færni leiðbeinenda og umsjón með matskerfi leiðbeinenda.

Kjartan Hansson landsforseti 2015

——————————————————————————–

V.REGLUGERÐ UM STEFNUMÓTUN
í samræmi við 31. grein laga

1. grein
Tilgangur
Að leggja fram tillögur fyrir landsþing hreyfingarinnar til a.m.k. þriggja ára í senn. Stefnumótun hreyfingarinnar er unnin úr tillögum félaga JCI Íslands.

2. grein
Nefndarskipan
Stefnumótunarnefnd er skipuð fimm félögum undir forsæti viðtakandi landsforseta. Landsstjórn, ásamt viðtakandi landsforseta, skipar á fyrsta framkvæmdastjórnarfundi í nefndina eftir tilnefningum frá aðildarfélögum. Nefndarmenn geta átt sæti í nefndinni í hámark þrjú ár.

3. grein
Endurskoðun / Kynning
Endurskoðun stefnumótunar skal fara fram árlega. Stefnumótun skal send með þingboði 21 degi fyrir þing. Stefnumótun skal rædd á þingfundi landsþings og endurskoðuð í kjölfar umræðna á landsþingi. Fullmótuð og endurskoðuð stefnumótun skal kynnt og samþykkt á FS fundi að hausti.

Arna Björk Gunnarsdóttir landsforseti 2006
——————————————————————————–

VI.REGLUGERÐ UM BRÉFLEGA ATKVÆÐAGREIÐSLU
í samræmi við 10. grein laga

1. grein
Heimild um bréflega atkvæðagreiðslu nær til aðkallandi málefna er þurfa úrlausnar milli landsþinga. Slík málefni eru til dæmis: Kjör nýs landsstjórnarmanns, hafi annar látið af störfum eða ef enginn frambjóðandi hefur náð kjöri í viðkomandi embætti á landsþingi. Ákvörðun um þingstað, hafi aðstæður eða forsendur fyrir þingboði brostið, þannig að þingbjóðandi treysti sér ekki til þinghalds.

2. grein
Hvert aðildarfélag hefur sama atkvæðafjölda og á síðasta landsþingi.

3. grein
Atkvæðaseðlar skulu sendir aðildarfélögum með sannanlegum hætti.

4. grein
Landsstjórn skal ákveða hverju sinni lengd framboðsfrests, svo og skilafrest atkvæða.

5. grein
Atkvæðagreiðsla telst lögleg er 2/3 hlutar atkvæða hafa borist.

6. grein
Landsforseti skipar þrjá JCI félaga til að sjá um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Lögsögumaður er eftirlitsmaður talningar og skal hann vera viðstaddur er hún fer fram. Niðurstaða talninga skal tilkynnt forsetum aðildarfélaga, bréflega, vottuð af lögsögumanni, innan 7 daga.

Svanfríður A. Lárusdóttir landsforseti 1998
——————————————————————————–

VII.REGLUGERÐ UM ÞINGBOÐ
í samræmi við ákvæði 7. greinar og 13. greinar laga

1. grein
Landsþing JCI Íslands stendur í 3 daga. Landsstjórn getur heimilað skemmra þinghald.

Dagskrá landsþings skal innihalda meðal annars:
– Þingfundi.
– Kynningu frambjóðenda til landsstjórnar og viðtakandi landsforseta.
– Námskeið.
– Dagskrá fyrir senatora, maka og erlenda gesti.
– Lokahóf.

2. grein
Þau aðildarfélög sem bjóða til þinghalds skulu gera það á eftirfarandi hátt:
1. Senda kjörnefnd og/eða landsforseta tilkynningu þar um ekki síðar en 1. september fyrir næsta landsþing þar á undan.
2. Senda landsstjórn staðfestingu um leigu þingsala og gistiaðstöðu með tilkynningu um þingboð.

3. grein
Hvert þingboð skal fá 10 mínútur til kynningar áður en gengið er til atkvæða.

4. grein
Í þingboðinu skal eftirfarandi vera innifalið a.m.k.:
1.Þingsalir fyrir þing og námskeið.
2.Öll þinggögn og tæki.
3.Tölva með internetaðgangi og prentara.
4.Móttaka og gistiaðstaða erlendra gesta á þingstað.
5.Farartæki milli þingstaða, hótela og skemmtistaða, ef þörf krefur.
6.Tveir boðsmiðar fyrir landsforseta.
7.Dagskrá fyrir þá sem sækja þingið, aðra en fulltrúa.
8.Senda ber öllum aðildarfélögum JCI skráningareyðublöð ásamt dagskrá þingsins.

5. grein
Ef ekkert þingboð berst hefur landsstjórn heimild til að skipa nefnd til að taka að sér þinghald með ofangreindum skilyrðum.

Þorkell Pétursson, landsforseti 2018 (Kynnt á FS fundi 24. apríl 2018)
——————————————————————————–

IIX.REGLUGERÐ UM STJÓRN JCI HÚSSINS
í samræmi við 38. grein laga

1. grein
Tilgangur

Tilgangur með skipan stjórnarinnar er að tryggja rekstur JCI hússins að Hellusundi 3 og hafa yfirumsjón með viðhaldi hússins og öðrum framkvæmdum tengdu því.

2. grein
Stjórn

Stjórnin skal skipuð fimm einstaklingum, landsforseta, fráfarandi landsforseta, tveimur senatorum skipuðum af landsforseta og einum félaga sem kosinn er á landsþingi til tveggja ára í senn. Stjórnin kýs sér formann og prókúruhafa til tveggja ára í senn en skiptir að öðru leiti með sér störfum. Prókúruhafar á reikningum hússins eru landsgjaldkeri og sá sem stjórn tilnefndi á fyrsta fundi hvers árs.

3. grein
Verkhættir

Stjórnin skal halda með sér fundi a.m.k. ársfjórðungslega, þar sem rekstur hússins, staða framkvæmda og viðhalds og annað það sem efni þykir til að fjalla um hverju sinni, skal rætt.

Stjórnin skal leggja fram þriggja ára rekstrar, viðhalds- og framkvæmdaáætlun á fyrsta framkvæmdastjórnarfundi JCI Íslands ár hvert.

Formaður stjórnarinnar ber ábyrgð á störfum stjórnarinnar gagnvart stjórn JCI Íslands og skal hann gera stjórninni grein fyrir málefnum hússtjórnar að loknum ofangreindum fundum.

Reikningsár hússins skal miðast við starfsár JCI Íslands og skulu reikningar þess vera gerðir upp og lagðir til samþykktar á fyrsta framkvæmdastjórnarfundi hvers árs. Reikningar hússins skulu skoðaðir af skoðunarmönnum hreyfingarinnar.

Guðlaug Birna Björnsdóttir landsforseti 2020 (Kynnt á FS fundi 29. nóvember 2020)

——————————————————————————–

IX.REGLUGERÐ UM FRAMFARASJÓÐ
í samræmi við 27. grein laga

1. grein
Heiti
Sjóðurinn heitir Framfarasjóður. Stofndagur sjóðsins er 19. desember 1997. Sjóðurinn er eign JCI Íslands.

2. grein
Tilgangur
Tilgangur með stofnun sjóðsins er að stuðla framgang og kynningu á hreyfingunni.

3.grein
Sjóðsstjórn
Í sjóðsstjórn eiga sæti þrír félagar þar af tveir kjörnir á landsþingi og einn landsstjórnarmaður. Framboð til sjóðsstjórnar skulu berast landsstjórn eigi síðar en 1. september það ár sem kjósa skal nýja stjórn í sjóðinn. Í sjóðsstjórn mega sitja senatorar og heiðursfélagar JCI Íslands eldri en fertugir. Sjóðsstjórn heyrir undir landsforseta.

4. grein
Starfshættir
Stjórnin kýs sér formann til eins árs í senn en skiptir að öðru leiti með sér störfum. Formaður boðar fundi stjórnarinnar og ber ábyrgð á störfum nefndarinnar gagnvart landsforseta. Höfuðstóll sjóðsins skal ávallt ávaxtaður eftir bestu leiðum hverju sinni, samkvæmt mati sjóðsstjórnar. Yfirlit yfir stöðu, ávöxtun og fjárveitingar sjóðsins skal lagt fram á landsþingi. Í upphafi árs, eigi síðar en 10. janúar, skal sjóðsstjórn upplýsa landsstjórn um raunávöxtun fyrra árs. Sjóðnum skal gera sérstaklega skil í reikningum hreyfingarinnar. Endurskoðendur JCI Íslands eru jafnframt endurskoðendur sjóðsreikninga.

5. grein.
Fjárveitingar úr sjóðnum
Ávöxtunarfé skal notað til sérverkefna á vegum JCI Íslands. Allir félagsmenn JCI Íslands geta sótt um styrk úr sjóðnum til verkefna er stuðla að framgangi JCI Íslands.

6. grein
Umsóknir og úthlutun
Úr sjóðnum er úthlutað tvisvar á ári. Umsóknir skulu berast stjórn sjóðsins fyrir 1.febrúar og 1. september ár hvert á sérstöku umsóknarblaði, sem m.a. er aðgengilegt á heimasíðunni www.jci.is. Sjóðsstjórn skal tilkynna ákvörðun um úthlutun úr framfarasjóð til landsforseta fyrir 10.febrúar og 10. september ár hvert.

7. grein
Leggist hreyfingin niður, skulu ákvæði laga JCI Íslands um ráðstöfun eigna gilda við ráðstöfun sjóðsins.

Þorkell Pétursson, landsforseti 2018 (Kynnt á FS fundi 24. apríl 2018)
——————————————————————————–

X. REGLUGERÐ UM GREIÐSLUFYRIRKOMULAG FÉLAGSGJALDA
í samræmi við 29. grein laga

Gjalddagi félagsgjalda er 10. febrúar, þó er aðildarfélögum heimilt að greiða gjaldið í allt að þrennu lagi, að einum þriðja fyrir 10. febrúar, að einum þriðja fyrir 10. maí og lokagreiðslu fyrir 1. september.  Skráningargjöld skulu greidd á sömu gjalddögum og þá af þeim nýju félögum sem gengið hafa inn frá síðasta gjalddaga.  Skráningargjöld vegna nýliða sem ganga inn á tímabilinu 1. september og til áramóta skulu greidd eigi síðar en 30. desember.

Þorkell Pétursson, landsforseti 2018 (Kynnt á FS fundi 24. apríl 2018)

——————————————————————————–

XI. REGLUGERÐ UM AÐILDARFÉLAG Í ENDURREISN

1. grein
Sé aðildarfélag með 10 félaga eða færri verður það skilgreint hjá landsstjórn sem aðildarfélag í endurreisn, óski aðildarfélagið eftir því. Umsókn um slíkt þarf að berast skriflega til landsstjórnar.

2. grein
Með umsókn þarf að berast fjárhagsáætlun og aðgerðaáætlun áætlun um endurreisn. Aðgerða áætlun skal samin í samvinnu við landsstjórn og þarf samþykki landsforseta áður en skrifleg beiðni um endurreisn er send landsstjórn.

3. grein
Aðildarfélag verður að skila inn til landsstjórnar aðgerðaráætlun til tveggja ára um endurreisn félagsins á sama tíma og beðið er um leyfi til endurreisnar. Forsenda fyrir því að leyfi landsstjórnar verði veitt er ekki einungis félagafjöldi, einnig er horft til aðgerðaráætlunar félagsins sem þarf meðal annars að innihalda fjárhagsáætlun.

4. grein
Fyrsta árið sem aðildarfélag er í endurreisn greiðir það þriðjung félagsgjalda til JCI Íslands. Annað árið greiðir það tvo þriðju en síðan fullt árgjald.

5. grein
Mismunur á félagsgjaldi hjá fullgildu aðildarfélagi og aðildarfélagi í endurreisn skal notast til kynningar og markaðsstarfs félagsins.

6. grein
Fulltrúi landsstjórnar/ umsjónarmaður aðildarfélagasins skal sjá til þess að að aðgerðaáætlun um endurreisn sé fylgt eftir. Nái aðildarfélag settu marki á fyrsta ári fellur niður skilgreiningin um endurreisn um áramót. Landsstjórn hefur fullt vald til rifturnar samnings þess sem gerður er um endurreisn aðildarfélags fari aðildarfélagið ekki eftir reglugerð þessari.

Birgit Raschhofer
Landsforseti JCI Íslands 2008

——————————————————————————–

XII. REGLUGERÐ UM NÝSKÖPUNARSJÓÐ
í samræmi við 28. grein laga

1. grein: Heiti.

Sjóðurinn heitir Nýsköpunarsjóður. Stofndagur sjóðsins er 8.1.2011.  Sjóðurinn er eign JCI Íslands.

2. grein: Tilgangur.

Sjóðurinn er skilgreindur lánasjóður með þann tilgang að lána fé til verkefna sem unnin eru af fullgildum JCI félögum til framdráttar JCI Íslandi. Fjárveitingar úr sjóðnum skal meðhöndla sem lánsfé sem endurgreiðast skal við uppgjör verkefnis.

3. grein: Sjóðsstjórn.

Í stjórn sjóðsins eiga sæti þrír fulltrúar.  Tveir fulltrúar kjörnir á landsþingi sem ekki mega sitja í framkvæmdastjórn hreyfingarinnar á því tímabili auk þriðja fulltrúa úr landsstjórn.  Heimilt er að annar kjörinna fulltrúa sé aðili utan JCI Íslands.  Sjóðsstjórn heyrir undir framkvæmdastjórn JCI Íslands.
Bráðabirgðaákvæði:  Tveir fulltrúar skulu kjörnir í fyrsta skipti í stjórn á 1. framkvæmdastjórnarfundi 8. janúar 2011, og sitja í stjórn, ásamt fulltrúa úr landsstjórn, þar til á landsþingi sama ár.

4. grein. Starfshættir.

a) Stjórnin kýs sér formann til eins árs í senn og skiptir að öðru leyti með sér störfum. Formaður boðar fundi stjórnar og ber ábyrgð á störfum stjórnar gagnvart framkvæmdarstjórn.

b) Höfuðstóll sjóðsins skal ávaxtaður eftir bestu leiðum hverju sinni að ákvörðun stjórnar, þó ekki með neinum bundnum leiðum.

c) Á 1. framkvæmdastjórnarfundi hvers árs skal liggja fyrir skýrsla sjóðsstjórnar til upplýsingar fyrir framkvæmdarstjórn um raunávöxtun fyrra árs, fjárveitingar og endurheimtur lána.

d) Sjóðnum skal sérstaklega gerð skil í reikningum hreyfingarinnar. Skoðunarmenn JCI Íslands eru jafnframt skoðunarmenn sjóðsreikninga.

5. grein: Fjárveitingar úr sjóðnum.

a) Félagsmenn sækja um fjárveitingu í nafni síns aðildarfélags, sem jafnframt er ábyrgðaraðili.  Séu félagsmenn úr tveimur eða fleirum aðildarfélögum er það jafnframt gert í nafni þeirra aðildarfélaga.

b) Forsenda fyrir öllum fjárveitingum úr sjóðnum skal vera útfyllt umsókn send formanni sjóðsnefndar þar sem fram kemur tilgangur verkefnis, framkvæmdaráætlun, fjárhagsáætlun og kynningaráætlun.  Umsókn skal vera undirrituð af forseta viðkomandi aðildarfélags.

c) Í framkvæmdaráætlun skal getið til hvaða tímaramma óskað er eftir láninu og á hvaða tímapunkti lánið skuli endurgreitt.

d) Sjóðsstjórn skal boða umsækjenda á fund til sín þar sem verkefnið er kynnt fyrir sjóðsstjórn.  Fari ekki fram kynning af hálfu umsækjenda ber sjóðsstjórn ekki skylda til að taka umsókn til afgreiðslu.

e) Heimilt er að úthluta þriðjungi af fjárhagsáætlun verkefnis, að hámarki 300.000 krónur.

6. grein: Aðgerðir ef um tap á verkefni er að ræða

Sjóðsstjórn skal bera framkvæmd verkefnis saman við gögn sem lögð voru til hliðsjónar við umsókn lánsins. Hafi vinnendur verkefnis unnið verkið í samræmi við sínar áætlanir og ytri ástæður eru orsakir taps, þá skal sjóðsstjórn sýna þeim aðstæðum skilning og afskrifa þá upphæð sem ekki gat innheimst án frekari innheimtu.  Þó er sjóðsstjórn heimilt að leggja til formlegrar innheimtu ef upp komast forsendubrestur á því formi að:

a) Verkefni var ekki unnið samkvæmt þeim áætlunum sem lagðar voru til forsendu umsóknar og féð nýtt til óskilgreindra athafna.

b) Verkefnið var ekki unnið og féð var nýtt til einkanota.

c) Fé var nýtt til einhvers óskilgreinds tilgangs og umsækjandi neitar að veita fullnægjandi upplýsingar.

d) Stjórn verður uppvís að fjársvikum. Sjóðsstjórn hefur heimild undir þeim kringumstæðum að leggja til við framkvæmdarstjórn, ásamt fullnægjandi rökum á þeirri niðurstöðu sinni, að leggja í harðari innheimtuaðgerðir eða til annarra lagalegra úrræða sem opin eru í stöðunni. Skal ákvörðun af því tagi þó skoðast sem síðustu forvöð, að öðrum mildari aðgerðum þaulreyndum.

7. grein: Umsóknir og úthlutun.

Úr sjóðnum skal útdeilt allt árið um kring.  Berist formanni stjórnar umsókn skal hún boða umsækjanda til fundar við sig innan tveggja vikna. Undanþága frá þessu eru sumarmánuðir, frá 1. júní til 31. júlí. Þó skal hámarksbið eftir fundi vera 4 vikur á þessu tímabili. Á þessum fundi skal umsóknin kynnt ásamt fullnægjandi gögnum af umsækjanda. Að fundi loknum hefur stjórn 10 daga afgreiðslufrest. Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá rökstuddar skýringar á þeirri ákvörðun stjórnar.

8. grein. Slit sjóðsins.

Leggist hreyfingin niður, skulu ákvæði JCI Íslands um ráðstöfun eigna gilda um ráðstöfun sjóðsins.

Ingólfur Már Ingólfsson landsforseti 2011

——————————————————————————–

XIV. REGLUGERÐ UM NÝ AÐILDARFÉLÖG
í samræmi við 3. grein og 29. grein laga
1. grein: Skilgreining
Ný aðildarfélög teljast þau félög sem starfa eftir hlutverki og sýn JCI hreyfingarinnar og stefna að aðild að Junior Chamber International Ísland.
Ný aðildarfélög skiptast í tvo flokka, aðildarfélag í undirbúningi og aðildarfélag í uppbyggingu.
a) Aðildarfélag í undirbúningi telst það félag sem sótt hefur um og hlotið samþykki landsstjórnar fyrir stofnun félags undir nafni JCI hreyfingarinnar.
b) Aðildarfélag í uppbyggingu telst það félag sem hefur myndað stjórn, lagt fram framkvæmda- og rekstaráætlun og hlotið samþykki landsstjórnar fyrir formlegri skráningu á félaginu undir nafni JCI.
2. grein: Umsókn
Aðildarfélag í undirbúningi
Félag sem sækir um stöðu aðildarfélags í undirbúningi þarf að skila til landsstjórnar nöfnum þeirra sem munu vinna að undirbúningi félagsins, stefnuyfirlýsingu og aðgerðaáætlun um undirbúning og stofnun félagsins.
Aðildarfélag í uppbyggingu
Við umsókn um stöðu aðildarfélags í uppbyggingu þarf aðildarfélag að skila inn nöfnum að minnsta kosti þriggja stjórnarmanna, félagatali, hvenær stefnt er að formlegri stofnun félagsins og aðgerða- og fjárhagsáætlun um uppbyggingu félagsins.
3. grein: Félagsgjöld
Aðildarfélag í undirbúningi er undanþegið greiðslum félagsgjalda til JCI Ísland.
Aðildarfélag í uppbyggingu greiðir þriðjung félagsgjalda til JCI Íslands miðað við félagatal sem skilað er inn við umsókn um stöðubreytingu. Aðildarfélag í uppbyggingu er undanþegið nýliðagjöldum. Þegar aðildarfélagið uppfyllir skilyrði þriðju greinar laga JCI Íslands og hlýtur samþykki landsstjórnar fyrir fullri aðild að hreyfingunni greiðir það nýliðagjald af öllum nýjum félögum. Frá næstu áramótum þar á eftir greiðir félagið tvo þriðju félagsgjalda til JCI Íslands og eftir það fullt árgjald.
Mismunur á félagsgjaldi hjá fullgildu aðildarfélagi og aðildarfélagi í uppbyggingu skal notast til kynningar og markaðsstarfs félagsins.
4. grein: Aðild að hreyfingunni
Aðildarfélag í undirbúningi getur sótt um styrki til landsstjórnar og sent áheyrnarfulltrúa á framkvæmdarstjórnarfundi hreyfingarinnar og landsþing.
Aðildarfélag í uppbyggingu getur sótt um styrki til landsstjórnar og forseti félagsins hefur tillögurétt og málfrelsi á framkvæmdastjórnarfundum og landsþingi. Þá skal landsstjórnskipa umsjónarmann aðildarfélagsins.
Landsstjórn er heimilt að endurskilgreina stöðu og/eða rifta samningum við nýtt aðildarfélag starfi það ekki eftir innsendri aðgerðaáætlun og hlutverki og sýn JCI.
Viktor Ómarsson landsforseti 2012
——————————————————————————–
XV. REGLUGERÐ UM NOTKUN MERKIS HREYFINGARINNAR
í samræmi við 3. grein laga

1. grein: Tilgangur
Gæta þarf þess að notkun merkis hreyfingarinnar sé í samræmi við alþjóðlega staðla hreyfingarinnar. Stöðluð notkun merkisins gefur til kynna að við störfum öll samkvæmt sömu einkunnarorðum og höfum sameiginlegan tilgang og takmark. Hún varðveitir ímynd hreyfingarinnar og vörumerkið sem heild.

2. grein: Lykilþættir merkisins
Helvetica Neue Bold er leturgerð merkis hreyfingarinnar. Aðallitur JCI merkisins er heiðblár, Pantone 2925 (#0097d7). Nafn JCI Íslands og aðildarfélaga þess notast við appelsínugulan lit, Pantone 1665 (#f37121). Ísland eða nafn aðildarfélags skal vera staðsett undir JCI merkinu á þann hátt sem tilgreindur er í leiðbeiningum frá höfuðstöðvum JCI.

3. grein: Framsetning
Merki JCI Íslands skal vera í samræmi við 3. gr. laga. Ekki er leyfilegt að taka einstaka þætti merkisins og fjarlægja, klippa, stækka eða á annan hátt breyta framsetningu þeirra.

4. grein: Notkun merkis hreyfingarinnar
Merki JCI Íslands skal prýða allt efni hreyfingarinnar sem birt er út á við, í hennar nafni. Þetta á meðal annars við opinberar fundargerðir og myndir, en takmarkast ekki einungis við slíkt efni. Frekari upplýsingar um merki JCI, framsetningu og notkun má finna í nýjustu útgáfu JCI Corporate Identity Guidelines á jci.cc.

Elizes Low Zin Rui landsforseti 2016

——————————————————————————————————

XVI. REGLUGERÐ UM 100% SKILVIRKNI
í samræmi við 14. grein laga

1. grein: Tilgangur
100% skilvirkniverkefnið veitir aðildarfélögum upplýsingar og aðhald til að starfa á skilvirkan máta og gerir landsstjórn kleift að hafa aukið eftirlit með starfi þeirra. Verkefnið felur í sér þau lykilatriði sem öll aðildarfélög ættu að framkvæma til að vaxa, dafna, virkja félagsmenn og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Staða í skilvirkniverkefninu gefur skýr merki um hvar aðildarfélagið stendur.

2. grein: Framkvæmd
Landsstjórn þýðir og staðfærir 100% skilvirkniverkefnið frá höfuðstöðvum JCI og dreifir til aðildarfélaganna.

3. grein: Stigagjöf
Aðildarfélög bera ábyrgð á að reikna út hversu mörg stig þau hljóta í 100% skilvirknifélaginu samkvæmt leiðbeiningum og ítarefni sem gilda hverju sinni. Aðildarfélögin skulu senda landsstjórn útreiknaðan stigafjölda sinn ásamt rökstuðningi að lágmarki þrisvar sinnum á ári; skömmu fyrir Evrópuþing JCI, minnst 30 dögum fyrir heimsþing JCI og í desember þegar sótt er um verðlaun til landsstjórnar.

4. grein: 100% skilvirkni
Aðildarfélög sem ná 100 stigum eða fleirum í kerfinu í lok starfsárs hljóta heiðursnafnbótina “skilvirkt aðildarfélag” fram til loka næsta árs. Að auki hljóta þau aðildarfélög verðlaun á landsstjórnarskiptum fyrir árangurinn.

Elizes Low Zin Rui landsforseti 2016

——————————————————————————————————-

XVII. REGLUGERÐ UM TRÚNAÐARMENN 
í samræmi við 10. grein laga
1. grein: Tilgangur
Tilgangur með kosningu tveggja trúnaðarmanna er að tryggja að félagsmenn geti leitað til óháðs JCI félaga ef ágreiningsmál eiga sér stað innan hreyfingarinnar.

2. grein: Trúnaðarmenn
Trúnaðarmenn skulu ekki vera kosnir í nein embætti í JCI á starfsárinu sínu. Þeir skulu leitast við að gæta fyllsta hlutleysis, halda trúnað, vera færir í samskiptum og sanngjarnir. Þar sem trúnaðarmenn eru einnig almennir félagar þá þurfa þau sem leita til þeirra að vera skýr að það sé verið að leita til þeirra sem trúnaðarmanna. Kjósa skal tvo trúnaðarmenn á þingfundi landsþings ár hvert, æskilegt er að þeir séu af mismunandi kyni og ekki úr sama aðildarfélaginu.

3. grein: Starfshættir
Sé leitað til trúnaðarmanns með umkvörtun skal hann kynna sér málið þegar í stað og gæta trúnaðar sé þess óskað. Komist hann að þeirri niðurstöðu að málið hafi við rök að styðjast ber honum að snúa sér til hlutaðeigandi aðila með umkvörtun og ósk um lagfæringu. Telji trúnaðarmenn þess þörf þá geta þeir óskað eftir liðveislu landsstjórnar til úrlausnar í samráði við þá sem leita til trúnaðarmanna. ​Trúnaðarmenn þurfa ekki að upplýsa um störf sín né hverjir óska eftir ráðgjöf þeirra.

4. grein: Brot á störfum trúnaðarmanns
Vanræki trúnaðarmaður störf sín eða verði hann vís um brot á trúnaði er landsstjórn heimilt að svipta hann umboði sínu og tilnefna annan trúnaðarmann í hans stað fram að kjöri nýs trúnaðarmanns á næsta þingfundi landsþings.

Þorkell Pétursson, landsforseti 2018 (Kynnt á FS fundi 24. apríl 2018)